Ráðgjafi að láni

Við veitum stofnunum heildstæða þjónustu á sviði mannauðs- og starfsþróunarmála. Eitt af þeim úrræðum sem boðið er upp á er Ráðgjafi að láni sem felst í að lána stofnunum ráðgjafa í tímabundna vinnu.

Ráðgjafar okkar veita stofnunum aðgang að sérfræðiþekkingu og reynslu og aðstoða við að finna leiðir til að auka ánægju starfsmanna, skilvirkni og árangur. Þeir starfa náið með stjórnendum og starfsfólki, styðja við ýmis umbótaverkefni innan stofnana og styrkja þannig grunn að markvissri stjórnun og eflingu mannauðs.

Ráðgjafi að láni er hagkvæm lausn þar sem hlutverk ráðgjafans er skilgreint í hverju tilfelli fyrir sig með þarfir stofnunar og starfsmanna í huga. Verkefni ráðgjafans eru öll á sviði mannauðseflingar og starfsþróunar, allt frá stefnumótun í málaflokknum til einstakra verkefna. 

Stofnanir þurfa að setja sér stefnu í mannauðsmálum sem samrýmist heildarstefnu og markmiðum í rekstri. Mannauðsstefna er yfirlýsing stofnunar í starfsmannamálum og segir til um hvaða viðmið stofnunin hefur að leiðarljósi við stjórnun starfsmanna. Skýr og vel skilgreind mannauðsstefna sem fylgt er eftir með viðeigandi aðgerðum er öflugt tæki til að laða fram það besta í hverjum starfsmanni. 

Nánar um mannauðsstefnu

Stefnumiðuð starfsþróun er samstarfsverkefni starfsmanna og stjórnenda. Með því að veita starfsmönnum tækifæri til starfsþróunar er leitast við að byggja upp þekkingu og hæfni til framtíðar. Menntun og þjálfun starfsmanna þarf að vera í takt við stefnu stofnana og markmið. Mikilvægt er að móta og innleiða starfsþróunarstefnu og áætlun um framkvæmd hennar, en það skapar ramma um fræðslumál og dregur úr líkum á því að fjárfest sé í fræðslu og þjálfun sem skilar litlu.

Nánar um stefnumiðaða starfsþróun 

Starfsmennt hefur áralanga reynslu af því að greina fræðsluþarfir og sérsníða nám fyrir stofnanir og starfshópa. Sú vinna er ávallt unnin í samvinnu við stjórnendur og starfsmenn stofnana, ýmist með viðtölum, rýnihópum eða könnunum. Með því að veita starfsmönnum tækifæri til starfsþróunar leitast vinnustaðir við að byggja upp hæfni til framtíðar og auka þannig starfsánægju, fagmennsku og gæði starfseminnar.

Mikilvægt er að fræðsla og nám svari raunverulegri þörf og séu í samræmi við hæfnikröfur og starfsmarkmið stofnana. Góð greiningarvinna í samstarfi við hlutaðeigandi aðila og heildstæð fræðsluáætlun eru því grundvallaratriði. 

Nánar um sérsniðið nám.

Vinnustaðagreining er góð aðferð til að afla upplýsinga um hvar stofnun stendur og hver viðhorf starfsmanna séu til hinna ýmsu þátta er tengjast starfi þeirra. Vel framkvæmd vinnustaðagreining sem fylgt er eftir með markvissum aðgerðum getur skilað ánægðari starfsmönnum og bættum árangri.

Möguleg viðfangsefni vinnustaðagreininga eru ýmiskonar, t.d. má skoða starfsþróun, ánægju, samskipti, stjórnun og hollustu starfsmanna.

Nánar um vinnustaðagreiningar 

Hæfnigreiningar eru góður grunnur að mörgum mannauðstengdum verkefnum og nýtast m.a. í starfsmannavali, við gerð starfslýsinga og við skipulagningu fræðslu og þjálfunar. Að greina hæfnikröfur starfa felst í að kortleggja og skilgreina þá hæfni sem er mikilvægt að starfsmaður búi yfir til að árangur náist í starfi.

Til eru mörg stöðluð hæfnilíkön sem nýta má við greininguna. Starfsmennt hefur þróað líkan sem ætlað er að koma til móts við þarfir stofnana og hentar einkar vel fyrir störf í opinberri stjórnsýslu. Hæfnigreiningar eru ávallt gerðar í nánu samstarfi við stjórnendur og starfsmenn hverju sinni en líkan Starfsmenntar nær yfir einstaklingsbundna hæfni og starfstengda þekkingu og færni.

Nánar um hæfnigreiningar starfa 

Vanda þarf til verka við innleiðingu og framkvæmd starfsmannasamtala. Þau koma eingöngu að notum ef þeim er fylgt eftir á markvissan máta og báðir aðilar sjá sér hag í þeim.

Starfsmannasamtal er uppbyggilegt og hreinskilið samtal milli stjórnanda og starfsmanns þar sem rætt er á skipulagðan hátt um þætti er snúa að starfi viðkomandi. Ráðgjafar okkar aðstoða stofnanir við undirbúning, innleiðingu og framkvæmd starfsmannasamtala. Einnig geta stofnanir óskað eftir námskeiði um starfsmannasamtöl sem sérsniðið er að þeirra þörfum.