Október er stafrænn meistaramánuður

Í október mun Starfsmennt beina sjónum að stafrænni hæfni og fjalla sérstaklega um hvað felst í slíkri hæfni og hvernig við getum aukið okkar eigin stafrænu hæfni.

Stafræn hæfni snýst um að geta beitt viðeigandi þekkingu og færni, en einnig að vera reiðubúin/n að endurskoða viðhorf sín og vera tilbúin/n að prófa nýja tækni. Þannig er um að ræða blöndu af þekkingu, færni og viðhorfi gagnvart tækni til að útfæra og framkvæma verkefni, leysa vandamál, eiga samskipti, meðhöndla upplýsingar, skapa og deila efni. Slíkt þarf að gerast af öryggi, með gagnrýnu hugarfari og á skapandi en jafnframt siðferðislegan hátt.

Notkun stafrænnar tækni er mjög víðfeðm í íslensku samfélagi og nær til margvíslegra viðfangsefna. Þannig krefjast nær öll störf a.m.k. lágmarkshæfni í notkun stafrænnar tækni, ýmis samskipti við opinbera aðila fara fram á stafrænan máta, netverslun fer vaxandi og þátttaka í námi krefst nær undantekningarlaust hæfni í notkun upplýsingatækni og stafrænna miðla. Efling almennrar stafrænnar hæfni er því samfélagslegt verkefni og stuðlar að því að styrkja mannauð og auka atvinnu- og samkeppnishæfni hvers og eins.

Stafræn hæfni hefur verið skilgreind sem einn af átta lykilhæfniþáttum símenntunar og starfsþróunar af Evrópuþinginu. Kórónaveirufaraldurinn ýtti við mörgum því heimsfaraldurinn hefur bæði krafist þess af okkur að finna nýjar lausnir og að nýta okkur stafrænar tæknilausnir til að leysa mál. 

Stafræna hæfnihjólið er ókeypis vefnámskeið sem Starfsmennt bjó til með styrk úr Þróunarsjóði framhaldsfræðslunnar. Námskeiðið er opið öllum og er hægt að skrá sig og hefja þátttöku strax í dag! 

Hver ert þú á netinu?

Ásýnd okkar og hegðun á vefnum skipta jafn miklu máli og ásýnd okkar og hegðun í raunheimum. Samskipti á netinu eiga að einkennast af gagnkvæmri virðingu. Í þessum hluta Stafræna hæfnihjólsins er fjallað um mikilvægi félagslegrar vitundar og minnt á að það sem við setjum á netið er þar alltaf. Mundu að hegða þér alltaf vel!

Er verið að njósna um þig?

Hefurðu heyrt þennan? „Hvað varð um tölvugögnin? ...... Þeim var rafrænt!
Mikilvægt er að vera vel á verði gagnvart hættum sem leynast á netinu og í stafrænum samskiptum. Í þessu myndbandi er farið yfir ýmis atriði er varða gagnavernd og hvað við getum gert til að verja okkur og gögnin okkar svo sem spilliforrit, falskar netsíður, tölvupóstssvindl og vírusvarnir.

Sjálfvirknivæðingin er komin til að vera

Verkefnastofa um stafrænt Ísland vinnur að því að aðstoða opinberar stofnanir við að bæta stafræna þjónustu við almenning með því að gera þjónustuna skýrari, einfaldari og hraðvirkari. Þar er lagt upp með að borgarinn geti sinnt erindum sínum á stafrænan máta.

Í Stafræna hæfnihjóinu er einmitt fjallað um sjálfvirknivæðingu sem er að breyta framleiðsluháttum og vinnumarkaði. Orð Gary Kasparov frá árinu 2017 eiga svo sannarlega við um þær miklu umbreytingar sem við upplifum í tengslum við stafrænu byltinguna: „Við sjáum hvað er að tapast en við sjáum ekki nýja hluti fyrr en þeir birtast.“

Er seigla í þér?

Þrautseigja er notuð til að skilgreina hæfni einstaklings til að takast á við breytingar eða mótlæti í lífinu. Hver hefur ekki lent í því að tapa örlítið gleðinni þegar verið er að innleiða nýjar stafrænar lausnir?

Stafrænar lausnir geta margar hverjar reynt á þrautseigju okkar og því er ekki úr vegi að efla hana á námskeiði hjá Starfsmennt. Námskeiðið er haldið 22.október 2020.

Veistu hvað netið veit mikið um þig?

Netið geymir gríðarlegt magn af upplýsingum um okkur. Við þurfum þess vegna að vera meðvitum um hvaða upplýsingar við veitum um okkur sem og hegðun okkar á samskipta- og netmiðlum. Þetta er viðfangsefnið í myndbandinu um umsjón persónuupplýsinga sem er hluti af Stafræna hæfnihjólinu

Bévítans breytingarnar

Að geta tekist á við breytingar er hluti af stafrænni hæfni. Tækninni fleygir fram og nýjungar líta stöðugt dagsins ljós. Það þarf seiglu og úthald til að þola álagið sem felst í innleiðingu á nýrri tækni og það þarf að þora að hvorki vita né kunna allt á meðan verið er að tileinka sér nýbreytnina. Á þessu námskeiði færðu hagnýtar leiðbeiningar og verkfæri til að takast á við breytingar. Námskeiðið er haldið 15.október 2020.

Samskipti með Teams

Kórónaveiran hefur svo sannarlega hent mörgum út í djúpu laugina þegar kemur að stafrænum samskiptaleiðum. Hver hefur ekki setið á Teams fundi einhvern tímann það sem af er árinu 2020? Teams er snilldarforrit til að eiga í samskiptum, skiptast á gögnum, taka þátt í fundum og á námskeiðum. En við fæðumst ekki með þekkingu á Teams svo ef þú vilt læra betur að nýta þér samskiptaforritið, þá erum við með námskeið sem gæti hentað, skráðu þig strax í dag!

Í október verður líka fjallað um:

  • Gagnrýnin hugsun
  • Viltu stytta þér leið?