
Ferli ráðgjafa að láni
Ráðgjafi að láni vinnur eftir skýru ferli sem er aðlagað hverju sinni að þörfum stofnunar. Ferli skiptist í fimm meginfasa: undirbúning, hönnun, greiningarvinnu, framkvæmd fræðslu og eftirfylgni.
Undirbúningur
Undirbúningur felst í að skilgreina markmið verkefnis, velja árangursmælikvarða og gera verk- og kostnaðaráætlun.
Starfsmennt er samstarf fjármála- og efnahagsráðuneytisins og flestra stéttarfélaga í BSRB um starfstengda símenntun og fræðslu. Í þeim tilvikum, sem starfsmenn eru félagsmenn í einhverju af aðildarfélögum Starfsmenntar, þá er þjónustan stofnun og starfsmönnum að kostnaðarlausu.
Hvað aðra starfsmenn varðar, þá aðstoðar Starfsmennt stofnanir við að finna hugsanlegar fjármögnunarleiðir m.a. hjá starfsmennta-sjóðum. Að lokum er gerður samningur milli Starfsmenntar og stofnunar þar sem áætluð afurð, verktími og kostnaður eru tilgreind.
Hönnun
Í hönnunarferlinu rýna ráðgjafar Starfsmenntar ýmis gögn t.d. ársskýrslur, starfslýsingar, niðurstöður starfsmannasamtala, flokkun starfa, hlutverk, markmið og stefnu stofnunar. Þessi gögn veita ráðgjöfum Starfsmenntar nauðsynlega innsýn inn í starfsemi stofnunar.
Í hönnunar-ferlinu eru gerðar áætlanir um framkvæmd greiningarvinnunnar m.a. við hverja verður rætt og hvernig. Hægt er að fara styttri leiðina og ræða einungis við stjórnendur en Starfsmennt hvetur til notkunar á rýnihópum til að sjónarmið flestra nái að koma fram. Fylgja má niðurstöðum rýnihópa eftir með stuttri könnun.
Greiningarvinna
Greiningarvinnan felur í sér ítarlega skoðun á niðurstöðum úr samtölum við stjórnendur og starfsmenn stofnunar og samantekt niðurstaðna m.a. með hliðsjón af hlutverki, markmiðum og stefnu stofnunar.
Niðurstöður greiningarvinnunnar eru settar fram í starfsþróunar-áætlun, þar eru gerðar tillögur að áherslum í fræðslu og þjálfun fyrir tiltekna starfsmannahópa og sett fram fyrstu drög að tímasettri starfsþróunar- eða fræðsluáætlun stofnunar.
Framkvæmd fræðslu
Framkvæmd fræðslu í samræmi við áætlun fer fram í samvinnu við stofnun. Sérstakt skráningarsvæði er sett upp á vef Starfsmenntar og geta starfsmenn nálgast yfirlit yfir eigin þátttöku á lokuðu svæði. Stjórnendur geta einnig fengið takmarkaðan aðgang til að fylgjast með þátttöku sinna starfsmanna.
Eftirfylgni
Áður en lagt er af stað í fræðslu eru settir upp árangursmælikvarðar. Ráðgjafar Starfsmenntar aðstoða stofnun við að fylgja fræðsluverkefnum eftir með því að mæla árangur út frá þeim mælikvörðum og vörðum sem ákveðnar eru í upphafi við undirbúning verkefnis.