Líðan fólks á vinnustaðnum hefur mikið að segja um frammistöðu þess og heilsu líkt og fjöldi rannsókna hefur sýnt fram á. Einnig hefur komið fram að ef starfsmaður á góðan vin á vinnustaðnum þá hefur það mjög jákvæð áhrif á líðan viðkomandi. En hver ber ábyrgð á líðan fólks á vinnustaðnum?

Einhverjir gætu sagt að stjórnendur beri ábyrgð á líðan starfsfólks á vinnustaðnum, sem er að hluta til rétt. Stjórnendur slá tóninn og skapa rammann fyrir vinnustaðamenninguna. Það er hinsvegar starfsfólkið sem fyllir inn í þennan ramma með því sem það leggur til samskiptanna. Hvernig talað er um vinnuna og vinnustaðinn, við hvort annað, um hvort annað, er á allra ábyrgð. Það þarf hver og einn að taka ákvörðun um hvernig það er gert. Það er mikilvægt að velja sér viðhorf og ákveða hvernig haga skuli samskiptunum og hvað skuli leggja í þau.

Jákvætt viðhorf til vinnunnar og tal smitar alveg jafn mikið og neikvætt viðhorf og baktal. Það getur verið gott að vera meðvitaður um daglegt líf samstarfsfólks síns og maður er manns gaman en neikvætt umtal og kaffistofuslúður ætti ekki að líðast. Það er líka á allra ábyrgð. Þannig má segja að fyrirmyndir fólks séu á vinnustaðnum og allt byrji þetta hjá starfsfólkinu sjálfu. Ef starfsfólk sér hinsvegar ekkert jákvætt við vinnuna, vinnustaðinn og vinnufélagana er mögulega kominn tími til þess að snúa sér að öðru því að óbreytt ástand er líka á ábyrgð hvers og eins.  

Hér eru 10 mikilvæg atriði sem gott er að rifja upp um starfsánægju og vellíðan á vinnustaðnum (lauslega þýtt af: https://arbejdsglaedenu.dk): 

  1. Þar sem starfsfólki líður vel getur framleiðnin orðið allt að tvöföld á við aðra vinnustaði.
  2. Starfsánægja og vellíðan á vinnustaðnum er ein af þremur mikilvægustu forsendum fyrir lífsgleði.
  3. Starfsánægja er besta forvörnin gegn stressi.
  4. Starfsánægja og vellíðan á vinnustaðnum getur dregið umtalsvert úr veikindafjarvistum og starfsmannaveltu.
  5. Ein algengasta ástæðan fyrir dvínandi starfsánægju eru neikvæðar athugasemdir, skortur á hrósi og viðurkenningu ásamt lítilli hjálp og stuðningi frá næsta yfirmanni.
  6. Starfsánægja og vellíðan er ábyrgð hvers og eins. Ekki yfirmannsins, samstarfsfélaganna eða samfélagsins. 
  7. Yfirmaðurinn og vinnustaðurinn bera ábyrgð á að setja umgjörðina fyrir starfsánægju og vellíðan á vinnustaðnum.
  8. Jákvæð vinnustaðamenning og starfsánægja eru grundvallaðar í stjórnun vinnustaðarins, starfsaðferðum, áætlunum og skipuriti og líka því sem við gerum hér og nú.
  9. Starfsánægja fæst ekki með hærri launum, bónusum, titlum eða fríðindum. Starfsánægja kemur af tvennu: Árangri- að vinna gott starf sem maður getur verið stoltur af og samskiptum- að vera í góðum og jákvæðum samskiptum við vinnufélagana.
  10. Starfsánægja verður ekki til af sjálfu sér heldur verður sífellt að huga að henni, bæði af hálfu starfsmanna og stjórnenda. 


Það eru til margar leiðir til að bæta starfsanda og samskipti á vinnustaðnum. Starfsmennt býður t.d. upp á mörg námskeið sem snúa að samskiptum. Einnig er hægt að óska eftir klæðskerasniðnum leiðum til að bregðast við mismunandi þörfum starfsmannahópa. Ekki hika við að hafa samband við okkur á smenn(hjá)smennt.is.