Starfsmennt biðlar til allra um að gæta vel að hreinlæti og almennum sóttvörnum til að koma í veg fyrir smit og útbreiðslu kórónaveirunnar. Við höfum tekið saman stuttar ábendingar sem varða þjónustu Starfsmenntar og húsnæði okkar í Skipholti 50b á þessum fordæmalausu tímum.

Starfsmennt er fræðslusetur fyrir fullorðna námsmenn og ber því að fara eftir leiðbeiningum sem mennta- og menningarmálaráðuneyti gefur út og gilda um starf skóla og fræðsluaðila sem kenna á framhaldsskólastigi.

Ekki koma til okkar! Hringdu frekar, notaðu vefspjallið eða sendu tölvupóst
Við hvetjum ykkur  til að nota vefinn www.smennt.is, vefspjallið, senda tölvupóst á smennt@smennt.is eða hringja í síma 550 0060 til að afla upplýsinga og vera í sambandi í staðinn fyrir að koma í Skipholtið. 

Almennt gildir að námsmenn, kennarar, gestir og starfsfólk eiga ekki að koma í húsnæðið ef þau:

  • Eru í sóttkví.
  • Eru í einangrun (einnig meðan beðið er niðurstöðu sýnatöku).
  • Hafa verið í einangrun vegna COVID-19 smits og ekki eru liðnir 14 dagar frá útskrift.
  • Eru með einkenni (kvef, hósta, hita, höfuðverk, bein- eða vöðvaverki, þreytu).

Sótthreinsum og virðum nándarmörk
Þrif á vinnustöðvum, kennslurými og sameiginlegu rými eru áfram í umsjón verktaka. Starfsfólk þrífur og sótthreinsar áhöld, búnað, handföng og aðra snertifleti a.m.k. einu sinni á dag. Lögð er áhersla á einstaklingsbundnar sóttvarnir svo sem handþvott, sótthreinsun og nándarmörk. Starfsmennt sér til þess að nóg sé af handspritti og leiðum til að viðhalda almennu hreinlæti og býður upp á hlífðargrímur og einnota hanska fyrir þau sem það vilja.

Gæta þarf að nándarmörkum þ.e. að minnst sé tveggja metra bil milli einstaklinga í sameiginlegum rýmum, skrifstofum og kennslustofu. Til að hægt sé að halda nándarmörk þarf að tryggja að ekki safnist of margir saman í sameiginlegum rýmum. Ef ekki er hægt að framfylgja nándarreglunni skal nota andlitsgrímu sem hylur munn og nef. 

Sýnum ábyrgð - verum vakandi - saman vinnum við bug á veirunni!

Í myndbandinu hér að neðan eru ábendingar um hvernig huga megi að heilsunni í samkomubanni og fordæmalausu ástandi sem COVID 19 hefur skapað.