Stjórnunarréttur og starfsskyldur opinberra starfsmanna

24.04.2017

Enn eru nokkur sæti laus á frábært námskeið fyrir alla stjórnendur og launafulltrúa sem starfa hjá hinu opinbera. Á námskeiðinu Mannauðsmál hjá ríkinu - stjórnunarréttur og starfsskyldur er fjallað um starfsmannarétt, eins og hann snýr að starfsmönnum ríkisins og ríkinu sem vinnuveitanda. Meðal annars verður fjallað um upphaf starfsins, málsmeðferð við veitingu embætta og starfa og hverra sjónarmiða veitingarvalds ber að gæta við val á starfsmanni. Sérstaklega verður fjallað um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna, en þ.á.m. er tjáningarfrelsi og þagnarskylda, hlýðni- og trúnaðarskylda, réttur til launa og lífeyrisréttindi.

Bjóðum nýjan framkvæmdastjóra velkominn til starfa

20.02.2017

Þau tímamót hafa orðið hjá okkur að nýr framkvæmdastjóri, Guðfinna Harðardóttir, hefur tekið til starfa. Hún hefur mikla og víðtæka reynslu sem kemur til með að nýtast setrinu vel. Guðfinna er með M.A. próf í mannauðsstjórnun frá Háskóla Íslands, cand. mag. próf í þýsku frá Kaupmannahafnarháskóla auk uppeldis- og kennslufræða til kennsluréttinda. Guðfinna hefur starfað sem mannauðssérfræðingur hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu og við kjaramál, fullorðinsfræðslu og tölfræðiúrvinnslu hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífs, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Hagstofu Íslands. Um leið og við fögnum Guðfinnu kveðjum við Huldu Önnu og óskum henni velfarnaðar á nýjum vettvangi.

Nýr starfsmaður

06.01.2017

Helga Rún Runólfsdóttir bættist í þegar góðan hóp starfsmanna Starfsmenntar nú um áramótin. Hún er mikill fengur og við hæstánægð að fá hana til starfa. Helga er með M.Sc. próf í mannauðsstjórnun og M.Sc. próf í stjórnun og stefnumótun frá Háskóla Íslands. Helga Rún hefur starfað sem ráðgjafi í mannauðsmálum og sem verkefnastjóri um árabil og hafa verkefnin verið meðal annars á sviði áætlanagerðar, framleiðslustjórnunar, fræðslu-, kynningar- og mannauðsmála og upplýsingatækni. Við bjóðum Helgu innilega velkomna til starfa.

Að byggja upp gott félagslegt vinnuumhverfi

05.01.2017

Hér eru tvö frábær myndbönd sem við unnum með Vinnueftirlitinu, Forvarnir og viðbrögð við einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Í myndböndunum fjallar Svava Jónsdóttir um einelti og áreitni á vinnustöðum og hvernig skuli byggja upp gott félagslegt vinnuumhverfi. Það er einnig hægt að lesa sér til um málið í þessum tveimur bæklingum sem gefnir voru út nýverið.