Frumvarp um jafnlaunavottun samþykkt

08.06.2017

Á dögunum var frumvarp félagsmálaráðherra, Þorsteins Víglundssonar, samþykkt á Alþingi. Frumvarpið kveður á um lögfestingu skyldu til jafnlaunavottunar meðal fyrirtækja og stofnana með 25 eða fleiri starfsmenn en meginmarkmið þess er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Fræðslusetrinu Starfsmennt var falið að halda utan um námskeið til að styðja við og auðvelda innleiðingu jafnlaunastaðals hjá stofnunum og fyrirtækjum.

Fagnám í umönnun fatlaðra - vottað af Menntamálastofnun

02.06.2017

Menntamálastofnun hefur nú vottað námskránna, Fagnám í umönnun fatlaðra. Þetta nám byggir á námskrá Starfsmenntar sem áður hét Starfsnám stuðningsfulltrúa en nafnið var talið of almennt og var þess vegna breytt til að endurspegla sem best innihald þess. Fræðslumiðstöð atvinnulífsins sá um endurskoðun námsins í samvinnu við Starfsmennt.

Stjórnunarréttur og starfsskyldur opinberra starfsmanna

24.04.2017

Enn eru nokkur sæti laus á frábært námskeið fyrir alla stjórnendur og launafulltrúa sem starfa hjá hinu opinbera. Á námskeiðinu Mannauðsmál hjá ríkinu - stjórnunarréttur og starfsskyldur er fjallað um starfsmannarétt, eins og hann snýr að starfsmönnum ríkisins og ríkinu sem vinnuveitanda. Meðal annars verður fjallað um upphaf starfsins, málsmeðferð við veitingu embætta og starfa og hverra sjónarmiða veitingarvalds ber að gæta við val á starfsmanni. Sérstaklega verður fjallað um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna, en þ.á.m. er tjáningarfrelsi og þagnarskylda, hlýðni- og trúnaðarskylda, réttur til launa og lífeyrisréttindi.

Bjóðum nýjan framkvæmdastjóra velkominn til starfa

20.02.2017

Þau tímamót hafa orðið hjá okkur að nýr framkvæmdastjóri, Guðfinna Harðardóttir, hefur tekið til starfa. Hún hefur mikla og víðtæka reynslu sem kemur til með að nýtast setrinu vel. Guðfinna er með M.A. próf í mannauðsstjórnun frá Háskóla Íslands, cand. mag. próf í þýsku frá Kaupmannahafnarháskóla auk uppeldis- og kennslufræða til kennsluréttinda. Guðfinna hefur starfað sem mannauðssérfræðingur hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu og við kjaramál, fullorðinsfræðslu og tölfræðiúrvinnslu hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífs, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Hagstofu Íslands. Um leið og við fögnum Guðfinnu kveðjum við Huldu Önnu og óskum henni velfarnaðar á nýjum vettvangi.