Við flytjum í sumar

08.05.2015

Nú byrjum við að pakka... Í sumar flytjum við starfsemi okkar í nýtt og rúmbetra húsnæði að Skipholti 50b. Við munum leigja þriðju hæð hússins, ásamt Fræðslumiðstöð atvinnulífsins sem við höfum búið með síðast liðin fimm ár. Þó Ofanleitið hafi þjónað okkur vel er kominn tími á breytingar og því færum við okkur í stærra húsnæði sem býður enn betri möguleika til að þjóna opinberum starfsmönnum á sviði fræðslu og mannauðsmála en þar er frábær aðstaða fyrir fundi, kennslu og vinnustofur af öllum stærðum og gerðum. Leigusali er Mark ehf. og var samningur undirritaður í síðustu viku.

Starfsnám stuðningsfulltrúa - útskrift

05.05.2015

Hér má sjá frísklegan og flottan hóp sem útskrifaðist úr starfsnámi stuðningsfulltrúa í dag. Námið, sem kennt er í samstarfi við Framvegis, miðstöð símenntunar, er ætlað öllum sem starfa með öldruðum og sjúkum eða hyggja á störf á þeim vettvangi. Við óskum þeim öllum til hamingju með glæsilegan árangur.

Nám í framhaldsskólum og innleiðing jafnlaunastaðals

28.04.2015

Við viljum tryggja að sem flestir geti nýtt sér þjónustu okkar og bjóðum því upp á fjölda starfstengdra námsleiða í samstarfi við framhaldsskóla. Í nýjasta fréttabréfinu okkar segjum við frá öllum helstu námsleiðum sem verða í boði næsta vetur, ásamt því að fjalla um mannauðsþjónustu okkar og innleiðingu jafnlaunastaðals. Smelltu hér til að lesa nýjasta fréttabréfið.

Gleðilega páska

01.04.2015

Þó sjálfshól hafi aldrei verið talinn mikill kostur þá er ekki hægt að segja annað en að starfsfólki okkar sé margt til lista lagt. Hér má sjá tvo glæsilega páskahana sem voru föndraðir í morgun úr gömlum námsvísum Starfsmenntar. Einfalt og skemmtilegt páskaskraut.