Starfsmannasamtöl

09.01.2019 10:13

 

 

 

Á nýju ári og með hækkandi sól fara margir að huga að árlegum starfsmannasamtölum. Starfsmannasamtöl eru trúnaðarsamtöl milli starfsfólks og næsta yfirmanns þar sem tækfæri gefast til að fara yfir ábyrgð, starfssvið, starfsþróun, frammistöðu og líðan í starfi. Þessar upplýsingar eru dýrmætar við þróun mannauðsmála, fræðsluáætlana og geta eflt enn frekar uppbyggingu heilbrigðs starfsumhverfis.

 

 

Áður en starfsmannasamtöl fara fram er mikilvægt að huga vel að undirbúningi þeirra. Hér fyrir neðan eru nokkur minnisatriði til upprifjunar sem geta mögulega nýst áður en lengra er haldið:

 • Markmiðið með starfsmannasamtölunum þarf að vera skýrt og hvernig unnið verður úr þeim.
 • Gott er að íhuga hvort það sé alltaf nauðsynlegt að hafa eitt samtal á ári eða hvort það sé vænlegra að hafa fleiri styttri og þá mögulega þematengd?
 • Mikilvægt er að hafa eyðublöð vegna starfsmannasamtala tilbúin og senda starfsmanni með góðum fyrirvara ásamt leiðbeiningum.
 • Gefa starfsfólki tækifæri til að yfirfara sína starfslýsingu áður en samtal fer fram.
 • Ígrunda fræðsluþörf viðkomandi og vinnustaðarins.
 • Huga þarf að umhverfi samtalsins með tilliti til næðis, hlýleika o.fl.

Starfsmannasamtöl skulu vera uppbyggileg, gagnrýnin og umfram allt gagnleg því er til mikils er að vinna með vönduðum starfsmannasamtölum. Helsti ávinningur með starfsmannasamtölum fyrir bæði vinnustaðinn og starfsmanninn er meðal annars:

 • Líkur á auknu trausti milli starfsfólks og yfirmanna
 • Getur stuðlað að enn betri samskiptum og starfsanda milli allra á vinnustaðnum
 • Gefur skýrari sýn á verkefni, þarfir fyrir fræðslu og starfsþróun beggja aðila
 • Gefur enn betri innsýn yfir þá þekkingu og færni sem starfsfólk býr yfir
 • Aukin skilvirkni fyrir bæði starfsmanninn og vinnustaðinn
 • Aukin samræming í starfsþróunarmálum þar sem þekking á styrkleikum starfsmanna eykst.
 • Stuðlar að lýðræði á vinnustaðnum, starfsmenn hafa fengið tækifæri til að koma sínum skoðunum og óskum á framfæri

Einhverjir geta kviðið því að taka starfsmannasamtöl og finnst það jafnvel tímasóun. Markmið og undirbúningur eru lykilatriðin. Starfsmennt býður upp á ráðgjöf og stuðning við undirbúning og úrvinnslu samtala. Ekki hika við að hafa samband og heyra meira.

Hér er hægt að lesa meira um starfsmannasamtöl og finna gagnleg eyðublöð sem hægt er að aðlaga viðkomandi stofnun/vinnustað:

http://stofnanasamningar.is/starfsmannasamtal/

Til baka