Að vera í takt við tímann - um ábyrgð á eigin starfsþróun

03.04.2019 09:38

Fyrir um ári eða tveimur síðan sá ég heimildarþátt um lokun síðustu kolanámuverksmiðja í Þýskalandi. Þar var rætt við fimmtugan karlmann, sem hafði hafið störf í verksmiðjunni sextán ára gamall og aldrei unnið við neitt annað. Það sem blasti nú við þessum manni á besta aldri var að hefja töku eftirlauna og að því ert virtist leggja kapal og reykja það sem eftir var. Hann hvorki kunni né þekkti neitt annað, pabbi hans og afi höfðu báðir verið kolanámumenn og sama gilti að því er virtist um allt hans nærumhverfi. Þarna var um jafnaldra minn að ræða, kornungan manninn fannst mér.

Fjórða iðnbyltinging eða stafræna byltingin hefur vakið upp miklar umræður um menntun og þjálfun starfsmanna. Raddir heyrast um að áherslur í grunnmenntun séu ekki í takt við þarfir atvinnulífsins og þar með vanti rétta þjálfun fyrir starfsmenn framtíðarinnar en einnig eru vangaveltur um hvernig standa skuli að endurmenntun þeirra sem fyrir eru á vinnumarkaði. Í skýrslunni The Future of Jobs Report 2018, sem gefin var út af World Economic Forum í september 2018, er því haldið fram að árið 2022 muni 54% allra starfsmanna þurfa á endur- og símenntun að halda til að geta tekist á við breytingar í starfsumhverfi sínu. Ef við heimfærum þetta á félagsmenn aðildarfélaga BSRB, sem telja um 21 þúsund, þá er um að ræða 11 þúsund félagsmenn sem þurfa á endur- og símenntun að halda. Hvert innihald þessarar menntunar á að vera er ekki alveg skýrt, en víða er bent á að mikilvægustu þættir í færni nútímastarfsmanns þurfi að vera á sviðum samskipta, tilfinningagreindar, lausnamiðaðrar hugsunar og sköpunar. Segja má að Norðmenn rammi þetta allt inn í einum færniþætti í skýrslunni Digitalisering – hvilken kompetanse trenger vi? frá árinu 2018, þar sem segir að allra mikilvægasti þátturinn, sem þjálfa þurfi upp, sé hæfnin til að læra og með því er átt við getuna og viljann til að þróa eigin færni alla ævi, taka þannig ábyrgð á eigin starfsþróun.

Nám og þjálfun eru ferli sem leiða til breytinga á skilningi og hugsun og hafa áhrif á hegðun einstaklings. Í ferlinu fléttar einstaklingurinn fyrri þekkingu og reynslu við þá nýju og fær úr því tæki sem hann notar til að skilja og fást við nýjar aðstæður. Mikilvægt er að hafa í huga að nám fer fram mun víðar en á skipulögðum námskeiðum eða í framhaldsnámi. Fólk lærir á margvíslegan máta og oft lærir það eitthvað nýtt eða þróar með sér ákveðna færni án þess að vera sér sérstaklega meðvitað um hvað er að gerast. Meðvitað og ómeðvitað nám í vinnuumhverfinu er hluti af þessu og er oft á tíðum vanmetið. Stjórnendur bera vissulega ábyrgð á að skapa gott námsumhverfi og hvetja til þjálfunar. Ábyrgð einstaklings felst í að vera tilbúinn til að takast á við þetta ferli, nýta það sem best og eins að þekkja eigin þarfir og möguleika til að vaxa. Í nútímasamfélagi er enn mikilvægara en áður að taka ábyrgð á eigin starfsþróun, þekkja þarfirnar og hvaða leiðir henta manni best til að tileinka sér ný vinnubrögð, viðhorf og færni.

Ég leiði oft hugann að jafnaldra mínum, þýska kolanámumanninum. Sá virtist hvorki hafa fengið hvatningu frá umhverfinu né fundið það hjá sjálfum sér að hann þyrfti að vera í takt við tímann og þjálfa upp nýja færni eða endurbæta þá færni sem hann bjó vissulega yfir, svo hægt væri að yfirfæra hana á önnur störf. Því velti ég því stundum fyrir mér, hvort hann sitji enn og leggi kapal allan daginn.

Guðfinna Harðardóttir, höfundur er framkvæmdastjóri fræðslusetursins Starfsmenntar. Greinin birtist fyrst í blaði Sameykis í mars 2019 (1.tb.9.árg.).


Til baka