Raunfærnimat á móti námskrá Háskólabrúar Keilis

21.05.2019 14:11

Árið 2018 bauð fræðslusetrið Starfsmennt í samvinnu við Keili, miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs, tvívegis upp á raunfærnimat á móti kröfum Háskólabrúar Keilis. Þetta verkefni var liður í að mæta þeim hópi fólks á vinnumarkaði sem ekki hefur lokið formlegu framhaldsskólanámi og hafði það markmið að stytta leið þeirra til lokaprófs af Háskólabrú Keilis. Verkefnið hlaut styrk úr Fræðslusjóði, sjóði framhaldsfræðslunnar, og var það unnið í samvinnu við Fræðslumiðstöð atvinnulífs (FA) og aðferðafræði FA um framkvæmd raunfærnimats fylgt í þaula.

Inntökuskilyrði í raunfærnimatið voru þau sömu og inntökuskilyrði Háskólabrúar, að vera 23 ára eða eldri, með samtals þriggja ára almenna starfsreynslu og hafa lokið að lágmarki 117 framhaldsskólaeiningum (70 eldri einingar), þar af einingum í grunnfögunum ensku, íslensku og stærðfræði.

Kennarar Keilis fóru yfir þá áfanga sem þeir kenndu og mátu hvort raunhæft væri að bjóða upp á raunfærnimat í þeim greinum. Niðurstaðan varð að sex greinar þóttu henta til mats: 


Stærðfræði 1 (STÆ2A06) 
Stærðfræði 2 - Tölfræði (STÆ3AT06) 
Upplýsingatækni (UPT2A06) 
Upplýsingatækni og tölfræði (UTÖ2B06) 
Danska (DAN2A06) 
Bókfærsla (INN2A06)

Kennararnir Háskólabrúar sáu svo um gerð matslista og mátu raunfærni þátttakenda.

Kynningar fóru fram annars vegar í janúar og hins vegar í september 2018 þar sem verkefnastjóri Starfsmenntar kynnti markmið og framkvæmd raunfærnimats og náms- og starfsráðgjafi frá Keili kynnti námið við Háskólabrú og möguleika þátttakenda að loknu raunfærnimati. Matsferlið sjálft hófst í kjölfar kynningarfunda. Fyrri hópurinn lauk ferlinu í júní 2018 en hópurinn sem hóf matsferlið á haustönn lauk því í byrjun janúar 2019.

Alls tóku ellefu einstaklingar þátt í raunfærnimatinu, allt konur, og var meðalaldur þeirra 50 ár. Í heildina fóru fram 26 matssamtöl og stóðust þátttakendur alls 150 framhaldsskólaeiningar. Flestar metnar einingar á einstakling voru 24 en sem dæmi má nefna að Félagsvísinda- og lagadeild Háskólabrúar Keilis telur 73 einingar í heildina.

Af ellefu þátttakendum voru tíu af höfuðborgarsvæðinu. Einn þátttakandi var af landsbyggðinni og voru ýmist notaðir rafrænir miðlar í matsferlinu eða viðkomandi kom til höfuðborgarinnar. 

Níu af þessum ellefu þátttakendum hófu strax nám á Háskólabrú í kjölfar raunfærnimats, en einn þátttakandi var þegar í námi þegar raunfærnimatið hófst. Til viðbótar skráðu tveir einstaklingar sig í námið sem höfðu sótt kynningarfund en töldu sig ekki eiga erindi í raunfærnimatið sjálft. Það er því óhætt að fullyrða að verkefnið hafi verið hvatning til frekara náms og nokkrar af þeim sem sem tóku þátt í fyrra verkefninu stefna á útskrift af Háskólabrú í júní 2019, aðeins rúmu ári frá því að ferlið hófst. 

Starfmennt hyggst fara af stað með þriðja hópinn nú í haust, sjá meira um hér: Raunfærnimat til styttingar náms á Háskólabrú Keilis.

Til baka