Þjónandi forysta

13.06.2019 10:31

Þjónandi forysta er hugmyndafræði sem á rætur sínar að rekja til Roberts Greenleaf sem skrifaði um hana í kringum 1970. Í þjónandi forystu er fyrst og fremst horft til þess að þjóna fyrst og leiða síðan. Reyndar hefur því verið haldið fram að þjónandi forysta hafi verið til frá alda öðli en það sé fyrst með skrifum Greenleafs sem hún hafi tekið á sig form. 
Einkenni þeirra sem tileinka sér þjónandi forystu eru fyrst of fremst að þeir bera hag heildarinnar fyrir brjósti. Þeir treysta samstarfsfólki sínu, þeir dreifa valdi og líta ekki á sig sem þá sem eru alltaf með bestu lausnina eða réttu svörin. Þjónandi leiðtogi hlustar af alúð, hvetur samstarfsfólk sitt, eflir fólk til góðra verka. Þjónandi leiðtogi er hógvær og tekur fólki eins og það er, ber virðingu fyrir sérkennum hvers og eins. Þjónandi leiðtogi leitast við að vera öðrum fyrirmynd. 
Mjög margar rannsóknir hafa verið gerðar á þjónandi forystu og hér á landi hefur t.d. komið í ljós að þjónandi forysta greinist víða s.s. hjá sveitarfélögum, sjúkrahúsum, velferðarþjónustu, grunnsskólum og framhaldsskólum. Nýlega var birt grein Sigurbjargar Hjálmarsdóttur og Sigrúnar Gunnarsdóttur sem fjallar um rannsókn á áherslum stjórnenda og leiðtoga hjá fyrirtækjum sem hafa hvað oftast fengið viðurkenningu sem fyirmyndarfyrirtæki ársins í könnun VR. Niðurstöðurnar voru í stuttu máli þær að sterkar vísbendingar eru um að áhersluþættir í stjórnun hjá þessum viðmælendum séu í takt við megineinkenni hugmyndafræði um þjónandi forystu. Ennfremur að styðja þessar niðurstöður fyrir rannsóknir um tengsl þjónandi forystu við árangur og starfsánægju.
Ávinningur þess að hafa þjónandi forystu að leiðarljósi hvort heldur sem er fyrir stjórnendur og/eða starfsfólk er ótvíræður. Þjónandi forysta eykur traust, skapar arð, eflir fólk til góðra verka og styrkir félagsauð. Ennfremur hefur verið sýnt fram á að þjónandi forysta dregur úr kulnun, eykur starfsánægju svo eitthvað sé nefnt. Það besta við þetta allt saman er að allir geta tileinkað sér þessa hugmyndafræði bæði í einkalífi og starfi. Ávinningur fyrir einstaklinga er til dæmis betri líðan, betra starfsumhverfi, minni streita og meiri starfsgleði. Það er því til mikils að vinna. Til að tileinka sér þjónandi forystu er einfalt að byrja á að lesa sér til um hana. Finna má mikið af upplýsingaefni inn á vef Þekkingarseturs um þjónandi forystu og eins hjá Virk starfsendurhæfingarsjóði þar sem lagt er út frá skilgreiningum Larry C. Spears. Einnig býður Starfsmennt upp á ráðgjöf og fræðslu um þjónandi forystu svo ekki hika við að hafa samband á smennt@smennt.is.

Til baka