Kemur fjórða iðnbyltingin mér við?

04.11.2019 13:24

4. iðnbyltingin er líkt og nafnið segir til um, sú fjórða í röð iðnbyltinga. Sú fyrsta átti sér stað á 19. öld þegar gufuvélar umbyltu framleiðslu á vefnaði frá handvefnaði í vélavefnað. Annarri iðnbyltingunni hratt Henry Ford af stað með færibandaframleiðslu á bílum. Þriðja iðnbyltingin fólst í innrás internetsins með nánast ótæmandi aðgengi okkar og stjórnun á upplýsingum og að lokum sú fjórða, sem nú er að hellast yfir okkur, felur í sér sjálfvirknivæðingu með aðstoð gervigreindar.

Allar þessar iðnbyltingar eiga það sameiginlegt að koma með einhvers konar truflun á vinnumarkaðinn. Gamalt vinnulag er lagt til hliðar og nýtt tekið upp. Þær hafa eytt ákveðnum störfum út af markaðnum, sett inn vélar sem leysa þau störf en jafnframt skapað fjölda nýrra starfa sem felast ekki í endurtekningu á einföldum verkefnum heldur störf sem krefjast frumkvæðis og frjórrar hugsunar mannsins. Þetta sjáum við í daglegu lífi þegar við pöntum tíma hjá lækni eða endurnýjum lyfseðla, stundum bankaviðskipti og skattaskil, sækjum um fæðingarorlof og / eða styrki og sinnum endurmenntun, allt á netinu. Við erum að verða sífellt tengdari netinu og erum farin að gera kröfur á fyrirtæki og stofnanir að veita slíka þjónustu.

Sjálfvirknivæðing kallar á breytingar innan fyrirtækja og stofnana. Í stað fjölda þjónustufulltrúa sem taka á móti skriflegum umsóknum eða beiðnum í síma er orðin meiri þörf á fólki sem getur sinnt úrvinnslu flóknari erinda. Fólki sem er flinkt í samskiptum, kemur auga á hvernig bæta má vinnulag og er óhrætt við að leita nýrra leiða til að leysa úr vandamálum sem upp geta komið. Mannlegir eiginleikar eins og gagnrýn hugsun, sköpun, samhyggð og samskiptafærni verða sífellt dýrmætari hjá starfsfólki eftir því sem gervigreind er nýtt á fleiri sviðum.

Til þess að undirbúa stofnanir og starfsfólk sem best undir sjálfvirknivæðingu er þörf á að huga að endurmenntun starfsfólksins. World Economic Forum tekur reglulega saman lista yfir æskilega hæfni sem fyrirtæki og stofnanir óska eftir hjá starfsfólki sínu á næstu árum. Efst á lista fyrir árið 2020 var hæfnin til að leysa flókin verkefni, gagnrýn hugsun og sköpunarhæfni. Hæfnin til að greina verkefni bættist síðan við ásamt fleiri þáttum. Hlutur gervigreindarinnar er að aukast í þjónustu fyrirtækja og stofnana. Hún sér nú þegar um að leysa úr tilteknum málum sem geta falið í sér endurtekin verkefni en það þarf áfram mannshugann til að leysa flóknari verkefni

Sjálfvirknivæðingin er komin til að vera og mun halda áfram að hafa áhrif á líf okkar og störf. Hvernig við tökum á því er undir okkur komið. Svo hvernig ætlar þú að takast á við breytingarnar? Ætlarðu að bíða eftir því að starfið breytist og taka á því þá eða ætlarðu að nýta þér tækifærin sem eru í boði nú þegar? Ætlarðu að leita leiða til að efla færni þína og geta þannig átt möguleika á að þróast samhliða breytingum á starfinu þínu? Þessari spurningu verður hver að svara fyrir sig, en mundu bara, ekki gera ekki neitt!

Til baka