Hvað er Starfsmennt?

Fræðslusetrið Starfsmennt var stofnað árið 2001 til að sinna heildstæðri þjónustu á sviði starfstengdrar símenntunar og mannauðseflingar fyrir opinberar stofnanir og starfsmenn þeirra. Við byggjum tilvist okkar á kjarasamningum milli eigenda setursins sem eru fyrir hönd vinnuveitanda, fjármála- og efnahagsráðuneytið og fyrir hönd launþega flest stéttarfélög innan BSRB. Setrið er því þjónustuaðili fræðslumála fyrir félagsmenn þeirra fjölmörgu aðildarfélaga sem að okkur standa. Við metum þörf fyrir fræðslu hjá  stofnunum og starfshópum, komum á starfstengdum námskeiðum, stuðlum að því að raungera starfsþróun á vinnustað og veita stofnunum ráðgjöf.

Hlutverk Starfsmenntar:

  • Bjóða opinberum starfsmönnum víðtæka möguleika til menntunar og þroska.
  • Aðstoða stjórnendur við mótun vinnustaðamenningar og starfsumhverfis sem miða að því að auka ánægju og hvatningu í starfi.

Framtíðarsýn Starfsmenntar er að vera leiðandi starfsmenntar- og ráðgjafamiðstöð og eftirsóknarverður samstarfsaðili í viðleitni opinberra stofnana til að efla fagmennsku og færni í starfi og í að skapa uppbyggilegt og hvetjandi vinnuumhverfi.

Aukin menntun og vaxandi hæfni starfsfólks til að takast á við fjölbreytt og krefjandi verkefni er líkleg til að efla fagmennsku og gæðastarf stofnana. Ávinningur símenntunar og mannauðsþjónustu er því hagur allra.

Flest almenn námskeið eru öllum opin en stofnanaskólar og starfsgreinanám er sérsniðið að þörfum ákveðinna hópa. Mannauðsþjónustan stendur stofnunum til boða þar sem hún nýtist okkar aðildarfélögum. Starfsmeninni er skipt niður á fræðslusvið og ráðgjafasvið.

Grunnur Fræðslusetursins Starfsmenntar

Fræðslusetrið Starfsmennt er afsprengi þeirra auknu áherslu sem fram hefur komið í endur- og símenntun starfsmanna ríkisins. Setrið byggir á þeirri hugmyndafræði að það sé æskilegt að þjálfa, viðhalda og auka þekkingu starfsmanna til að auka gæði starfseminnar og starfsánægju þeirra.

Við kjarasamningsgerð árið 2001 var eftirfarandi bókun gerð:

Bókun 1 
"Aðilar eru sammála um að efla símenntun starfsmanna með það fyrir augum að þeir verði færari til að takast á við sífellt fjölbreyttari verkefni og jafnframt að auka möguleika stofnana á að þróa starfssvið sitt þannig að það samræmist þeim kröfum sem gerðar eru til stofnana á hverjum tíma. Leitað verði samstarfs við önnur stéttarfélög og einstakar stofnanir, til þess að koma á starfstengdum námskeiðum í þessu skyni sem starfsmenn geti sótt án verulegs kostnaðar.
Verði það gert á þann hátt að á samningstímabilinu verði unnið að því að stofna sérstakt ,,Fræðslusetur” í samvinnu við önnur stéttarfélög. Hlutverk þess er að vera hugmyndabanki/umsjónaraðili/framkvæmdaaðili, að meta þörf fyrir fræðslu hjá einstökum stofnunum eða stofnanahópum og að hafa frumkvæði að því að búa til námskeið sem svara þeirri þörf."  

Í kjarasamningi frá 2005 er eftirfarandi bókun sem hefur verið endurnýjuð í öllum kjarasamningum síðan, nú síðast 28. október 2016.

Bókun 3 
Aðilar eru sammála um að greiða áfram sérstakt framlag til Fræðslusetursins Starfsmenntar. Framlag þetta skal nema 0,25% af heildarlaunum.

Fræðslusetrið verður áfram vettvangur samstarfs stéttarfélaga og ríkisins og skal vera opið fyrir samstarfi við fleiri félög en nú standa að því. 


Þjónusta Fræðslusetursins Starfsmenntar á sviði fræðslu, náms- og starfsráðgjafar og raunfærnimats hefur hlotið vottun frá Fræðslumiðstöð atvinnulífs um gæði í fræðslustarfi (EQM) og Starfsmennt er viðurkenndur framhaldsfræðsluaðili skv. lögum um framhaldsfræðslu 27/2010.