Fræðslusetrið Starfsmennt var stofnað árið 2001 og er samstarfsvettvangur fjármála- og efnahagsráðuneytis og flestra aðildarfélaga BSRB um starfstengt nám, starfsþróun og ráðgjöf á sviði mannauðseflingar. 

Starfsmennt styður færniþróun opinberra starfsmanna svo þeir séu betur í stakk búnir til að takast á við fjölbreytt verkefni og breytingar í starfsumhverfi. Jafnframt aukast möguleikar stofnana á að þróa starfsvið sitt þannig að það samræmist þeim kröfum sem gerðar eru til þeirra á hverjum tíma.

Hlutverk Starfsmenntar eru að:

  • bjóða opinberum starfsmönnum víðtæka möguleika til menntunar og þroska.
  • aðstoða stjórnendur við mótun vinnustaðamenningar og starfsumhverfis sem miðar að því að auka ánægju og hvatningu í starfi.

Starfsmennt miðar að því að vera leiðandi starfsmenntar- og ráðgjafamiðstöð og eftirsóknarverður samstarfsaðili í viðleitni opinberra stofnana til að efla fagmennsku og færni í starfi og í að skapa uppbyggilegt og hvetjandi vinnuumhverfi. 

Nám og ráðgjöf Starfsmenntar eru stofnunum og starfsmönnum ríkisins að kostnaðarlausu ef um er að ræða félagsmenn í aðildarfélögum fræðslusetursins. Gerðir hafa verið samstarfssamningar við aðra ýmsa aðra fræðslu- og starfsmenntarsjóði til að fleiri hópar geti nýtt þjónustuna. 

Þjónusta Starfsmenntar á sviði fræðslu, náms- og starfsráðgjafar og raunfærnimats hefur hlotið EQM gæðavottun, sem Fræðslumiðstöð atvinnulífs veitir. Starfsmennt hefur einnig hlotið viðurkenningu Menntamálastofnunar sem viðurkenndur framhaldsfræðsluaðili skv. lögum um framhaldsfræðslu nr. 27/2010.

Starfsmennt er til húsa í Skipholti 50b, 3.hæð. Við bjóðum frábæra aðstöðu til funda- og námskeiðahalds, aðkoman er þægileg og næg bílastæði. 

Kennitala 441001-2070
Fyrir greiðslur 0303-13-300674