Samþykktir

Fræðslusetrið Starfsmennt var stofnað árið 2001 og er afsprengi þeirra auknu áherslu sem farið var að leggja á endur- og símenntun starfsmanna ríkisins fyrir hartnær tuttugu árum. Setrið byggir á þeirri hugmyndafræði að það sé æskilegt að þjálfa, viðhalda og auka þekkingu starfsmanna til að auka gæði starfseminnar og starfsánægju þeirra.

Í kjarasamningum árið 2001 var eftirfarandi bókun samþykkt:
Bókun 1 (frá árinu 2001)
„Aðilar eru sammála um að efla símenntun starfsmanna með það fyrir augum að þeir verði færari til að takast á við sífellt fjölbreyttari verkefni og jafnframt að auka möguleika stofnana á að þróa starfssvið sitt þannig að það samræmist þeim kröfum sem gerðar eru til stofnana á hverjum tíma. Leitað verði samstarfs við önnur stéttarfélög og einstakar stofnanir, til þess að koma á starfstengdum námskeiðum í þessu skyni sem starfsmenn geti sótt án verulegs kostnaðar.
 Verði það gert á þann hátt að á samningstímabilinu verði unnið að því að stofna sérstakt ,,Fræðslusetur” í samvinnu við önnur stéttarfélög. Hlutverk þess er að vera hugmyndabanki/umsjónaraðili/framkvæmdaaðili, að meta þörf fyrir fræðslu hjá einstökum stofnunum eða stofnanahópum og að hafa frumkvæði að því að búa til námskeið sem svara þeirri þörf.

Árið 2005 var bókunin stytt og kveðið á um framlag vinnuveitenda og megintilgang starfseminnar:
Bókun 3 (frá árinu 2005)
„Aðilar eru sammála um að greiða áfram sérstakt framlag til Fræðslusetursins Starfsmenntar. Framlag þetta skal nema 0,25% af heildarlaunum.
Fræðslusetrið verður áfram vettvangur samstarfs stéttarfélaga og ríkisins og skal vera opið fyrir samstarfi við fleiri félög en nú standa að því.

Þessi bókun var endurnýjuð í kjarasamningum sem á eftir komu allt til ársins 2020 þegar ákvæði um framlag til Starfsmenntar varð hluti af 10.kafla kjarasamnings fjármála- og efnahagsráðherra og Sameykis:
Gr. 10.4.1. „Launagreiðandi greiðir mánaðarlegt framlag er nemur 0,25% af heildarlaunum félagsmanna Sameykis.

Markmið

Í reglum um Fræðslusetrið Starfsmennt er hlutverk þess skilgreint á þann veg að það eigi meðal annars að vera;

  • Hugmyndabanki / umsjónaraðili / framkvæmdaðili.
  • Að meta þörf fyrir fræðslu hjá einstökum stofnun um eða stofnanahópum.
  • Hafa frumkvæði að því að búa til námskeið sem svarar þeirri þörf.

Á grunni nefndra reglna leggur Starfsmennt því megináherslu á eftirfarandi markmið: 

  • Að efla starfsnám og símenntun þeirra starfsmanna stofnana sem aðild eiga að því, með það fyrir augum efla þekkingu þeirra, hæfni og vellíðan í starfi svo þeir verði færari til að takast á við sífellt fjölbreyttari verkefni. Starfsmennt mun leggja áherslu á að bjóða upp á nám og stuðning er styrkir einstaklinga, starfshópinn sjálfan og eykur getu þeirra við úrlausn verkefna. 
  • Að bjóða upp á fræðslu, þjálfun og stuðning við stofnanir og stofnanahópa, er eykur möguleika þeirra á að þróa starfsemi sína á þann veg, að það samræmist þeim kröfum sem gerðar eru til þeirra á hverjum tíma. 
  • Að hafa námskeið og þjálfunartilboð setursins opin þannig að fleiri aðilar en þeir sem beina aðild eiga að því geti einnig sótt um þátttöku.
  • Að vera leiðandi og taka þátt í þróunarverkefnum á sviði símenntunar og starfsþróunar sem greiða leið til frekari menntunar og viðurkenningu á færni.

Leiðir 
Fræðslusetrið Starfsmennt hyggst ná ofangreindum markmiðum með öflugu og fjölbreyttu námsframboði og góðri þjónustu, þar sem hagur starfsmanna og stofnana fara saman. Það mun setrið gera með því að gera tillögur um fræðslu, vera umsjónaraðili og/eða framkvæmdaaðili, taka á móti hugmyndum og vera stefnumótandi. Einnig mun Fræðslusetrið Starfsmennt leggja áherslu á að meta þörf fyrir fræðslu og þróa leiðir til að mæta breytilegum kröfum um þjálfun og nám bæði meðal starfsmanna og stofnana.

Fræðslusetrið Starfsmennt mun alla jafna leggja áherslu á að fá til samstarfs hæfa aðila til að sjá um framkvæmd þeirra námskeiða og námstilboða sem setrið hyggst standa að. Í þessu efni mun setrið leita til menntastofnana, einstaklinga og fyrirtækja á sviði menntunar og fræðslu, til að taka að sér framkvæmd verkefna.

Uppbygging setursins 
Starfsmennt mun leggja áherslu á að byggja upp þekkingu og getu meðal stjórnar og starfsmanna, til að sinna verkefnum sínum á sem skilvirkastan hátt. Hluti af þeirri stefnu er að taka þátt í endur- og símenntunarverkefnum, sem aðrir aðilar bjóða upp á. Starfsmennt leggur áherslu á að stjórn og starfsmenn taki virkan þátt í slíkum verkefnum eftir efni og ástæðum hverju sinni, jafnt innan lands og utan.

Stýrihópar og ráðgjöf  
Fræðslusetrið Starfsmennt stefnir að því að þau verkefni sem það stendur fyrir verði ávallt byggð upp af fagmennsku og að leiðarljósi verði haft að tryggja eftir föngum bestu fáanlegu gæði verkefna. Þessu hyggst setrið meðal annars ná með því að nýta sér sérfræðiþekkingu og ráðgjöf, framfylgja gæðastöðlum við framkvæmd verkefna og vinna með stýrihópum sem ætlað er að tryggja gæði, þátttöku og góða framkvæmd.

Námskeið og þjálfunarleiðir 
Fræðslusetrið Starfsmennt leggur áherslu á vandaðan undirbúning námskeiða, þjálfunar, ráðgjafar og annarrar þjónustu sem setrið veitir. Í þessu sviði vinnur setrið náið með ýmsum fagaðilum á þeim vettvangi sem það starfar og nýtur ráðgjafar þeirra. Hluti af gæðastjórnun setursins á þessu sviði er mat á árangri hvers verkefnis og regluleg endurskoðun þeirra.

Fræðslusetrið Starfsmennt stefnir að því að tryggja gæði starfseminnar með því að hljóta viðurkenningu þess til bærra aðila á námskeiðum, þjálfunarleiðum og öðrum þeim verkefnum sem setrið stendur að.

Samstarf 
Fræðslusetrið Starfsmennt leggur áherslu á að rækta samstarf við aðra aðila utan þess hóps sem stendur að setrinu. Lögð skal áhersla á að fá til samvinnu önnur stéttarfélög og aðra rekstraraðila þegar um er að ræða verkefni, sem nýtast öðrum en þeim sem aðild eiga að setrinu. 

Reglur 

1. grein - Fræðslusetrið Starfsmennt
Fræðslusetrið heitir Starfsmennt. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík. Fræðslusetrið Starfsmennt er sett á stofn og starfar á grundvelli bókunar í kjarasamningi fjármálaráðherra f.h ríkissjóðs annars vegar og eftirtalinna félaga;

SFR - stéttarfélags í almannaþjónustu

Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar

Kjalar - stéttarfélags starfsmanna í almannaþjónustu

Samflots bæjarstarfsmannafélaga

Félags flugmálastarfsmanna ríkisins

Félags starfsmanna stjórnarráðsins

Fræðslusetrið Starfsmennt starfar með því skipulagi og skv. þeim markmiðum sem segir í reglum þessum. Stjórn Fræðslusetursins skal setja sér nánari starfsreglur í samræmi við markmið þess.

Önnur stéttarfélög ríkisstarfsmanna geta gerst aðili að Fræðslusetrinu Starfsmennt með samþykki stjórnar.

2. grein  - Markmið og hlutverk
Markmið Fræðslusetursins er að efla símenntun þeirra starfsmanna stofnana sem aðild eiga að því og stuðla að markvissri starfsþróun þeirra, með það fyrir augum að þeir verði færari til að takast á við sífellt fjölbreyttari verkefni og jafnframt að auka möguleika stofnana á að þróa starfsemi sína þannig að það samræmist þeim kröfum sem gerðar eru til þeirra á hverjum tíma.

Hlutverk Fræðslusetursins er að ná ofangreindu markmiði með því að gera tillögur um fræðslu, vera umsjónaraðili og/eða framkvæmdaaðili, taka á móti hugmyndum og vera stefnumótandi. Fræðslusetrið Starfsmennt leggur í þessu efni áherslu á að ljá stofnum atfylgi sitt og veita þeim þjónustu og ráðgjöf. Í því felst meðal annars að greina og meta þörf fyrir fræðslu og þjálfun og gerð áætlana á því sviði.

3. grein  - Fjármál og tekjur
Tekjur Fræðslusetursins eru:
Framlag er nema skal 0,25% af heildarlaunum félagsmanna aðildarfélaga.

  • Framlög Þróunar- og símenntunarsjóða samningsaðila samkvæmt reglum þeirra á hverjum tíma.
  • Vaxtatekjur.
  • Sjálfsaflafé.

Fræðslusetrið tekur þátt í kostnaði við fræðslu starfsmanna.

Fræðslusetrinu er heimilt að afla tekna með sölu námsefnis eða námskeiða samkvæmt ákvörðun stjórnar.

Fjármuni Fræðslusetursins skal ávaxta á þann hátt sem stjórn þess telur hagkvæmasta á hverjum tíma.

Fræðslusetrið getur tekið að sér rekstur og umsýslu Þróunar- og símenntunarsjóða félaganna samkvæmt samkomulagi við stjórnir sjóðanna.

Reiknisár Fræðslusetursins er almanaksárið. Uppsetning ársreiknings og endurskoðun skal gerð af löggiltum endurskoðanda.

Fulltrúar stéttarfélaganna í stjórn Fræðslusetursins skulu tilnefna tvo skoðunarmenn reikninga setursins.

Ársreikning skal senda til samningsaðila.

4. grein  - Skipun stjórnar
Stjórn Fræðslusetursins skal skipuð fjórum mönnum til tveggja ára í senn, tveimur skipuðum af fjármálaráðherra og tveimur af stéttarfélögunum. Stjórnin kýs sér formann og varaformann úr sínum hópi. Stjórnin skal funda reglulega, halda gerðabók og rita í hana samþykktir sínar. Til þess að samþykkt sé lögmæt þarf meirihluti stjórnarmanna að greiða henni atkvæði.

Stjórnin skal árlega gera skýrslu um störf sín og senda samningsaðilum.

5. grein - Framkvæmdastjóri 
Stjórnin skal ráða framkvæmdastjóra Fræðslusetursins. Framkvæmdastjóri skal stýra hinu daglega starfi og sjá um framkvæmd ákvarðana stjórnar.

6. grein - Breytingar 
Breytingar á reglum þessum skulu háðar samþykki samningsaðila.

Reykjavík, 14. júní 2005
F.h. fjármálaráðherra
 F.h. SFR - stéttarfélags í almannaþjónustu
 F.h. Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar
 F.h. Kjalar - stéttarfélags starfsmanna í almannaþjónustu
 F.h. Samflots bæjarstarfsmannafélaga


Reykjavík, 1. janúar 2006
 F.h. Félags flugmálastarfsmanna ríkisins
 F.h. Félags starfsmanna stjórnarráðsins