Raunfærnimat

Þekkingar er ekki einungis aflað í gegnum hefðbundið skólakerfi eða námskeið. Á lífsleiðinni öflum við okkur alls kyns þekkingar og reynslu í leik og starfi sem veitir ekki endilega viðurkenningarskjal sem hægt er að leggja fram til staðfestingar um kunnáttu. 

Raunfærni er samanlögð færni sem einstaklingur hefur náð með ýmsum hætti, svo sem í gegnum starfsreynslu, starfsnám, frístundanám, skólanám, félagsstörf og fjölskyldulíf. Niðurstöður raunfærnimats eru nýttar til að stytta nám eða sýna fram á og auka færni á vinnumarkaði. Raunfærnimat er því öflugur hvati fyrir einstaklinga til enn frekari hæfniþróunar.

Það eru tvær megin leiðir í framkvæmd raunfærnimats. Annars vegar er það mat til styttingar á námi. Þar sem færni einstaklingsins er borin við námskrá og hæfniviðmið áfanga lögð til grundvallar. Hins vegar er vottun á hæfni í starfi þar sem reynsla einstaklingsins er metin á móti hæfnikröfum starfs sem byggist á hæfnigreiningu. Að loknu raunfærnimati kemur fram hvaða hæfniviðmið fást metin og hvar er þörf fyrir starfsþjálfun. Að lokinni starfsþjálfun er hæfnin svo vottuð með fagbréfi með tilvísun í hæfniþrep.

Fræðslu- og símenntunarstöðvar um land allt bjóða upp á raunfærnimat í hinum ýmsu greinum og má finna frekari upplýsingar um raunfærni og matsferlið á vefnum Næsta skref.

Ef þú hefur áhuga á raunfærnimati getur þú haft samband við náms- og starfsráðgjafa Starfsmenntar sem vísar þér veginn.