Malcolm Knowles er oft sagður faðir nútímahugmynda um fullorðinsfræðslu en hann vakti einmitt athygli á því að fullorðnir einstaklingar nálgast nám, fræðslu og þjálfun oftast með öðru hugarfari en börn. Börn velta því t.d. ekkert sérstaklega fyrir sér af hverju þau eru látin læra ýmsa hluti og þau læra ýmislegt í formlega skólakerfinu án þess að vita hvort þau eigi nokkurn tímann eftir að hagnýta sér þekkinguna, leiknina eða hæfnina. 

Helstu einkenni fullorðinna námsmanna:

  1. Fullorðið fólk hefur sterka þörf fyrir að skilja tilganginn með náminu áður en það hefst. Því þarf það að vera fyrsta verk leiðbeinanda að fara yfir markmiðin með náminu og hvaða hæfni það á að skila.

  2. Fullorðnu fólki finnst það bera ábyrgð á eigin ákvörðunum og eigin lífi. Þegar það hefur öðlast þessa sjálfsmynd hefur það sterka sálfræðilega þörf fyrir að vera metið að verðleikum og forðast aðstæður þar sem skoðunum er þröngvað upp á það. Þess vegna er nauðsynlegt að leiðbeinandi leyfi opnar umræður og beri virðingu fyrir ólíkum sjónarmiðum námsmanna. Það er líka mikilvægt að leiðbeinendur virði sjálfsákvörðunarrétt einstaklings til að sinna öðrum skyldum en að stunda námið.

  3. Reynsla hins fullorðna námsmanns er mikil og önnur en yngra fólks, þótt ekki væri vegna annars en að það hefur lifað lengur. Lífsreynsla hefur margvísleg áhrif bæði á skoðanir en einnig vilja til að stunda nám. Einstaklingur sem býr að slæmri reynslu frá skólagöngu sinni á yngri árum gæti átt erfitt með að sitja námskeið í skólastofu jafnvel þótt að áhugi á efninu sé fyrir hendi. Kennarar og leiðbeinendur ættu alltaf að hafa í huga að reynsla fullorðinna er margvísleg og oft á tíðum önnur en þeirra sjálfra.

  4. Fullorðnir eru tilbúnir að læra það sem þeim finnst þeir hafa þörf fyrir á hverjum tíma og finna að þeir geta tengt við líf sitt og aðstæður. Fullorðnir námsmenn hafa almennt annars konar afstöðu til náms en börn og unglingar. Fullorðnir eru fúsir til að læra það sem þeir geta tengt við raunveruleg verkefni eða vanda sem þeir standa frammi fyrir. Fullorðnir vilja öðlast nýja þekkingu, skilning, hæfni, gildismat og viðhorf að skjótan og auðveldan hátt og geta tengt þetta raunverulegum aðstæðum.

  5. Fullorðnir námsmenn eru stundum drifnir áfram af ytri hvötum, t.d. von um annan starfsvettvang, hærri laun, stöðuhækkun eða breytt verkefni. Sterkasta áhugahvötin er þó innri áhuginn þ.e. vonin um aukinn þroska og að fá að dafna í lífi og starfi. Helstu hindranir hjá fullorðnum námsmönnum eru slök sjálfsvitund, skortur á tækifærum eða fjármagni til að sinna námi, tímaskortur, framboð fræðslu og persónulegar skyldur.

Kennarar og leiðbeinendur í fullorðinsfræðslu þurfa að hafa þessi atriði í huga og vinna markvisst að því að virkja fullorðna í náminu, draga reynslu þeirra inn í umræður, taka tillit til sérþarfa m.a. ef námsmaður þarf að sinna persónulegum skyldum á meðan á námskeiði stendur eins og að svara í síma, fara fyrr eða mæta seinna. Leiðarljós í fræðslu fullorðinna er að miðla þekkingu og um leið að kveikja með námsmanninum löngun til að læra enn meira, efla hæfni sína og ná markmiðum sínum. 

Ítarefni