Hér áður fyrr voru börn send í greindarpróf sem áttu að skera úr um gáfur þeirra og þar með getu til að læra. Prófin voru hins vegar þeim annmörkun háð að þau mældu alls ekki öll svið greindar og þess vegna fengu sumir einstaklingar á sig stimpil sem jafnvel fylgdi þeim alla ævi. Gömlu viðhorfin snerust um að greind væri meðfædd, hún væri samsett úr sömu þáttum hjá öllum og hún héldist óbreytt út ævina.
Gömul viðhorf um greind
- Greind er meðfæddur hæfileiki og er óbreytanlegur.
- Er á einu afmörkuðu sviði sem er rökhugsun og orðræða, þ.e. orðsnilld og góð rökfærsla eru merki um miklar gáfur/greind.
- Sami mælikvarði er notaður á alla til að ákvarða um magn greindar eða skort á greind.
Ný viðhorf um greind
- Greindina má rækta, þjálfa og þar með efla.
- Greind finnst á nokkrum víddum og sviðum. Samkvæmt Gardner og Goleman er um að ræða 10 víddir og flest erum við sterk á 3-4 víddum.
- Niðurstöður úr greindarmælingum ætti alltaf að túlka út frá því umhverfi sem mælingarnar fara fram í.
Fjölgreind og tilfinningagreind
Þegar Howard Gardner kom með fjölgreindarkenningu sína og Daniel Goleman svo síðar með kenningar sínar um tilfinningagreind var farið var að líta á greind í víðara samhengi. Greindarsvið Gardners ná m.a. til málgreindar, rýmisgreindar, hreyfigreindar og umhverfisgreindar. Goleman fjallar svo um mikilvægi tilfinningagreindar fyrir innihaldsríkt líf og árangursrík samskipti.
Hugarfar grósku
Bandaríski sálfræðingurinn Carol Dweck skoðaði hvatningu, persónuleika og persónulegan þroska einstaklinga og setti fram kenningar um hvers konar hugarfar skiptir máli til að geta þroskast, vaxið og dafnað. Samkvæmt hennar kenningum er það trúin á að maður geti sífellt bætt sig.
- Carol Dweck: The power of believing that you can improve.
- Hugarfar grósku - lykillinn að velgengni í leik og starfi
Að mati Carol Dweck býr fólk bæði yfir hugarfari festu og hugarfari grósku, mismiklu þó af hvoru fyrir sig og að þau okkar sem almennt trúi því að hægt sé að læra og tileinka sér nýja hluti með því að leggja á sig séu þau sem nái dýpri þroska á lífsleiðinni. Dweck telur að allir geti tileinkað sér hugarfar grósku en það kostar sjálfsvinnu og seiglu.
- Hugarfar festu (fixed mindset): Trúin á að getan byggi á meðfæddum hæfileika og geti þar af leiðandi lítið breyst, getan er fastlögð í upphafi. Hæfileikinn er þá þekkt stærð og þar af leiðandi er nokkuð ómögulegt að læra eitthvað sem krefst hæfileika sem maður er ekki með. Hafir þú hæfileika geturðu náð árangri án þess að leggja þig mikið fram, en ef hæfileikinn er ekki fyrir hendi þá er nær ómögulegt að ná árangri. Stjórnendur og kennarar með hugarfar festu trúa því að starfsmaður/námsmaður hafi ekki meiri getu en þá sem hann sýnir hverju sinni og þar af leiðandi sé nær ómögulegt að kenna þeim eitthvað nýtt eða biðja um að hlutir séu gerðir á annan hátt.
- Hugarfar grósku (growth mindset): Trúin á að getan sé afleiðing reynslu og mikillar vinnu og þar af leiðandi sé alltaf hægt að þroskast. Manneskjur með hugarfar grósku trúa því að hægt sé að læra en nám taki tíma og þarfnist vinnu. Lendi maður í vandræðum, þá þarf maður að leggja sig enn meira fram. Stjórnandi með hugarfar grósku trúir því að hann sé í standi til að hjálpa starfsmanni að þroskast og geti þjálfað hann til að sinna verkefnum og takast á við breytingar í starfsumhverfi allt eftir þörfum hverju sinni. Starfsmaður með hugarfar grósku er sífellt að leita leiða við að auka hæfni sína og er reiðubúinn að takast á við ný verkefni. Með hugarfari grósku er einblínt á þá framtíðarhæfni sem mögulegt er að tileinka sér en ekki aðeins horft á núverandi skorti á hæfni.
Af hverju skiptir þetta máli í fullorðinsfræðslu?
Kenningar Gardners og Golemans vörpuðu ljósi á að einstaklingar læra á mismunandi máta og eru sterkir á mismunandi sviðum. Mestur árangur í námi verður þegar hægt er að virkja styrkleika einstaklings og styðja hann í að nýta þann námsstíl sem hentar best. Kennarar sem búa yfir góðri tilfinningagreind eiga auðveldar með að hvetja námsmenn áfram og koma auga á hvað getur hamlað árangri í námi.
Hugarfar grósku er gríðarlega mikilvægt í námi og kennslu. Það að líta á nám sem leiðangur og á þeim leiðangri muni verða gerð ýmis konar mistök. Fólk með hugarfar festu óttast mistök því þau bera vott um vanmátt þeirra eða heimsku. Ef þeim verða á mistök þá líta þau á sig sem tapara. Einstaklingur með hugarfar grósku lítur á mistök sem hluta af lærdómsferli, sem áfanga eða vörður á leið sinni að takmarkinu.
Í nútímasamfélagi er afar mikilvægt að tileinka sér hugarfar grósku. Breytingarnar eru hraðar og því er nauðsynlegt að hafa þá trú að maðu geti lært, þróast, aflað sér aukinnar kunnáttu og hæfni. Þetta gildir um kennara í fullorðinsfræðslu, fullorðna námsmenn sem og stjórnendur, því stjórnendur eru að vissu leyti leiðbeinendur á vinnustað og ættu ávallt að leitast við að viðhafa sjálfir hugarfar grósku og hvetja starfsmenn og aðra stjórnendur til að tileinka sér það hugarfar. Við erum öll verk í vinnslu og verðum líklega aldrei fullmótuð.