Félagsliði vinnur á félags-, heilbrigðis- og menntasviði við að aðstoða einstaklinga sem þurfa á sérhæfðri aðstoð að halda við athafnir dagslegs lífs og styðja þá til sjálfshjálpar. Starfsvettvangurinn spannar vítt svið félagslegrar endurhæfingar og virkniúrræða fyrir þá, sem vegna félagslegra aðstæðna, veikinda, öldrunar, þroskaraskana eða hvers kona áfalla, þurfa á sérstökum stuðninga að halda. 

Starfsmennt greiðir innritunar- og einingagjöld í brúarnámið fyrir aðildarfélaga sína og aðildarfélaga Sveitamenntar og Ríkismenntar. 

Félagsliðabrú 

Til að koma til móts við fólk með langa starfsreynslu hefur verið boðið upp á nám á félagsliðabrú þar sem raunfærni og starfsreynsla er metin til styttingar á námi í samræmi við reglur sem mennta- og menningarmálaráðuneytið setur. Eftirfarandi skilyrði eru sett fyrir inngöngu í brúarnám félagsliða:

  • Að nemandi hafi náð 22 ára aldri.
  • Að nemandi hafi a.m.k. 3 ára starfsreynslu og starfi enn við heimaþjónustu eða umönnun aldraðra, sjúkra eða fatlaðra*.
  • Að nemandi hafi lokið starfstengdum námskeiðum á vegum stéttarfélaga, sveitarfélaga eða annarra aðila (t.d. starfsnámi stuðningsfulltrúa, grunn- og framhaldsnámskeiði)*.

*Brúarnám miðast við 3ja ára starfsreynslu og ca. 200-240 klst. starfstengd námskeið. Eins eru framhaldskólaeiningar metnar ef áfangar eru þeir sömu eða sambærilegir við þá sem kenndir eru á brautinni. Þau sem ekki hafa 3 ára starfsreynslu þurfa að fara í starfsnám og þau sem ekki hafa námskeið þurfa að taka fleiri einingar til að útskrifast af brúnni.

Rafrænt umsóknareyðublað fyrir brúarnám

Raunfærnimat til félagsliða

Eftirtaldar fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar bjóða upp á raunfærnimat til félagsliða. Raunfærnimatið er fyrir þau sem starfa í félags- og umönnunarþjónustu og hafa hug á að ljúka félagsliðanámi. Best er að hafa samband við miðstöðvarnar og óska eftir samtali við ráðgjafa.

Á vefnum Næsta skref er að finna skimunarlista svo þú getir lagt fyrsta mat á hvort þú átt erindi í raunfærnimat. Niðurstaðan er aðeins vísbending um hvort ástæða sé til að skoða næstu skref með ráðgjafa.