Með yfirfærslu hæfni er átt við þegar einstaklingur notar þekkingu sína, leikni og hæfni úr einum aðstæðum til að takast á við annars konar aðstæður. Með því að geta yfirfært hæfni sína er einstaklingurinn betur í stakk búinn til að takast á við fjölbreytt verkefni.

Þegar þjálfa á nýja hæfni eða festa breytta hegðun í sessi er nauðsynlegt að markmiðið sér skýrt og að sá/sú sem tekur þátt í náminu skilji

  • hvað það er sem á að efla, hvað er það sem hann/hún þarf að verða betri í,
  • hvað á að læra til að auka þessa hæfni,
  • af hverju þarf að auka þessa tilteknu hæfni eða breyta þessari tilteknu hegðun.

Með því að gera einstakling að virkum þátttakanda í undirbúningnum þegar fræðsluþörfin er greind er líklegra að áhuginn verði meiri, hvatningin eykst og meiri líkur verða á að hann/hún skuldbindi sig til að læra það sem þarf að læra og þar með að tileinka sér réttu hæfnina.

Skýr markmið auka yfirfærslu
Því augljósari og skýrari markmið, sem einstaklingur hefur með þátttöku í námi, fræðslu og þjálfun, þeim mun líklegra er að yfirfærsla eigi sér stað. Þess vegna er það góð venja að kennari rifji upp markmið námsins í upphafi og gefi þátttakendum smá tíma og rými til að ígrunda hvað þeir sjálfir hyggist fá út úr fræðslunni. Dæmi um spurningar sem hægt er að biðja þátttakendur að velta fyrir sér eru:

  • Hver eru mín markmið, hvað kann ég og hvað vil ég læra? Hvaða hæfni vil ég yfirfæra?
  • Hvernig get ég vitað hvort ég hef náð markmiðum mínum?
  • Hvernig forgangsraða ég hverju námsmarkmiði fyrir sig?
  • Hvað þarf að vera til staðar á vinnustaðnum til þess að ég geti notað nýju hæfnina?
  • Hvað ætla ég að gera til að koma í veg fyrir að ég falli í gamla farið og noti sömu vinnubrögð og áður?

Trúin flytur fjöll
Því sterkari sem trú einstaklings er á að hann geti notað það sem hann lærir í vinnu eða einkalífi, þeim mun líklegra er að hann noti það í raun og veru. Einstaklingur þarf líka að hafa trú að eigin getu til að læra og gefa sér heimild til að gera mistök, spyrja spurninga og byggja upp hæfni sína. Kennarinn getur skipt sköpum í því að byggja upp og viðhalda trú einstaklings á sjálfum sér og getu sinni til að læra og þess vegna skiptir miklu máli að bæði kennari og þátttakendur tileinki sér hugarfar grósku í námi, kennslu og þjálfun.

Nám tekur tíma og þarf að tengjast raunaðstæðum
Til að auka líkur á yfirfærslu er mikilvægara að þátttakandi læri hlutina vel, fari á dýptina, heldur en að skautað sér yfir mikið magn af námsefni. Það tekur tíma að tileinka sér nýja hæfni og breyta hegðun og því betur sem maður kann eitthvað, þeim mun líklegra er að maður noti það við ólíkar aðstæður. Því meiri sem þjálfunin er í náminu, þeim mun meiri líkur eru á að þátttakandi nái að tileinka sér hæfnina og nýti hana í raunaðstæðum.

Námsumhverfið hefur áhrif á hversu vel hið nýlærða festist í sessi og hvernig yfirfærslan í raunaðstæðum tekst til. Því nær sem námsumhverfið er raunveruleikanum, þeim mun líklegra er að yfirfærslan eigi sér stað. Það lærir jú enginn að aka bíl með því einu að lesa sér til um það. Þess vegna er gott að velta þessum atriðum fyrir sér:

  • Í hvaða samhengi er hægt að nota þessa nýju hæfni og það nýlærða?
  • Hversu lík þurfa námsumhverfi og raunaðstæður að vera til að yfirfærsla eigi sér örugglega stað? 

Almenn yfirfærsla náms er þegar eitthvað nýtist í margvíslegum aðstæðum. Dæmi um slíkt væri kennsla um hreinlæti og sóttvarnir en skilningur á því hvað skiptir máli í þeim efnum nýtist mjög víða. Sértæk yfirfærsla er þegar hæfnin yfirfærist á eitt afmarkað starfssvið t.d. bókhald eða launavinnslu. 

Eftirfylgni og stuðningur á vinnustað
Við skipulag símenntunar/starfsþróunar með starfsmanni, þ.e. áður en einstaklingur sækir nám eða námskeið, er gott að setja upp áætlun sem byggir á eftirfarandi skrefum:

  1. Hvað lærir starfsmaðurinn? Hvaða hæfni á að efla?
  2. Hvernig mun starfsmaður nota afrakstur námsins (nýju hæfnina) í starfi sínu?
  3. Hvaða markmiðum mun starfsmaður ná í starfi sínu með þessari nýju hæfni?
  4. Hvernig styður þessi nýja hæfni við markmið og stefnu stofnunarinnar?

Þegar starfsfólk snýr aftur á vinnustaðinn eftir að hafa sótt nám eða námskeið þarf að vera rými fyrir það að prófa sig áfram til að festa nýju hæfnina í sessi. Þá skiptir máli að réttu verkfærin séu til staðar, sem og tími til að prófa sig áfram en kannski er allra mikilvægast að mæta jákvæðu viðhorfi samstarfsfélaga og stjórnenda, sem sýna eigin vilja til að læra og tileinka sér nýja hæfni.

Það nám sem fram fer á vinnustaðnum í samskiptum starfsmanna er oft vanmetið. Á góðum og framsæknum vinnustað gera stjórnendur allt sem í þeirra valdi stendur til að stuðla að og skapa aðstæður svo starfmenn megi þróast og geti bætt frammistöðu sína. Þegar þekking berst milli starfsmanna öðlast þeir aukna víðsýni við lausn verkefna og verða betur í stakk búnir til að taka að sér ný og fjölbreytt verkefni. Aukin menntun og hæfni eins starfsmanns smitar út frá sér. Þannig eykst ekki eingöngu hans eigin framleiðni heldur má reikna með að framleiðni næstu starfsfélaga aukist einnig.

Heimildir: